Færsluflokkur: Bloggar

Hvað á maður að

Í dag á ég afmæli og er auðvitað frá fornu fari mikið afmælisbarn í mér.  En í dag er ekkert stórafmæli og ég er að vinna næturvaktir sitthvorum megin við afmælisdaginn.  Og í millitíðinni er ég svo að passa Tigerinn sem hefur nú uppgötvað nýjan hæfileika, nefnilega klifurtækni.  Með alveg ótrúlegri lagni nær hann að sveifla sér upp í tölvustólinn og þaðan príla upp á tölvuborðið þar sem hann kemst í það allraheilagasta í íbúðinni.  En hvað um það þá reikna ég ekki með að taka á móti gestum í dag, en hins vegar var það fastur liður í denn að brjóta upp afmælisdaginn með því að fara í keilu, billjard eða út að borða.  Í mörg ár fór ég í keiluhöllina í Öskjuhlíð, en hin síðari ár hefur maður kannski skellt sér í billjard eða á pizzastað.  Ekki merkilegt svo sem, en í dag var ég að velta fyrir mér að skella mér á Ísland-Spán í knattspyrnu.  Veit ekki einu sinni hvort ég fái gott sæti á Laugardalsvelli.  Ekki heldur hvort ég fari einn á völlinn, en mér fyndist það þó frekar leiðinlegt.  Fyrir tveim árum skelltum við okkur meðal annars til Barcelona & Parísar á stórafmæli mínu.  Í framtíðinni mun ég vonandi halda við þessum skemmtilega sið að gera mér dagamun og á stórafmælum mun ég fara til útlanda.  Eigum við að segja að ég haldi upp á næsta stórafmæli mitt með góðri Ítalíuferð.  Árið verður 2015 og nú er um að gera að byrja að undirbúa sig.

Sorry

En ég bara nennti ekki að blogga neitt í sumar, enda í anda stjórnmálamannanna sem létu ekki heyra í sér en eru nú komnir á fulla ferð í bullinu.  Auk þess hefur maður ekki verið í skapi til að skrifa neitt, þótt margt hafi á dagana drifið.  En núna verður maður bara að setja andann upp og bretta upp á ermarnar.  Byrjum á byrjuninni.  Í Svignaskarði las ég m.a bók Guðmundar Árna núverandi sendiherra, en í bókinni er hann að rifja upp aðförina gegn honum í upphafi tíunda áratugarins.  En hvað gerði Guðmundur eiginlega af sér?  Ekki meira en þeir fjölmörgu spilltu stjórnmálamenn sem við höfum fylgst með síðustu tíu árin.  Og hver gagnrýndi hann og sparkaði undan honum löppunum á sínum tíma?  M.a einn af þeim spilltu stjórnmálamönnum sem nú eru flæktir í spillingarmál Grímseyjarferjunar.  En hann þarf að sjálfsögðu ekki að segja af sér því að við Sjálfstæðismenn stöndum með okkar fólki.  Annars á ég ekki von á því að neinn taki ábyrgð í þessu máli.  Það er eins með þetta og margt annað að stjórnmálmennirnir þurfa aldrei að taka ábyrgð á neinu. 

Sumarfríiið á enda

Í sumar hefur maður verið að taka sumarfríið í skorpum og núna síðast eyddum við nokkrum dögum í Svignaskarði í Borgarfirði.  En ekki hefur maður getið hreyft sig að ráði, því slæm meiðsli hafa sett mark á mig síðan um miðjan júlí og núna er Tigerinn farinn að ganga og síðan hlaupa um allt og því er hann beinlínis farinn að stinga mig af.  Já, Tiger er strax farinn að vinna karlinn í einhverju.  En án alls gríns þá er þetta auðvitað grátbroslegt að á sama tíma og maður sjálfur gat varla gengið fór sá litli að ganga.  Og hvað gerði maður þá í sveitinni annað en slappa af?  Jú maður las t.d lifandis ósköp meðan maður hreyfði sig varla út úr húsi.  Fórum þó í góðar útsýnisferðir um Borgarfjörðinn, m.a Húsafell, Hvítársíðu, Hvanneyri, Reykholt og svo auðvitað Borgarnes.  En auðvitað var maður vel pirraður á því að geta ekki hreyft sig, en það stóð auðvitað aldrei lengi og maður á aldrei að vorkenna sér, þegar annað fólk hefur það ekki eins gott.  Af hverju fær þú þér ekki bara staf, sagði Faaborginn og brosti allan hringinn.  Já, góð hugmynd að ganga með staf eins og virðulegur greifi.  Mr.  Faaborg hefur sjálfur verið að finna fyrir eymslum í baki og því er hann ekki hraustur sjálfur, en saman sömdum við um okkar aumingjaskap, eins og Snorri Sturluson forðum, en hann hafði einmitt vetursetu í Svignaskarði fyrir um 800 árum síðan.  Gott ef andi Snorra sjálfs hafi ekki komið yfir okkur í sveitinni.

Slitin er mjöðmin

Slitið mitt bak

Svignaskarð erfitt að klífa

Gamall og gugginn

gaddslitið flak

Hár mitt að reita og rífa 

DSC_1506

 


Skúnkar

Ætti maður að eyða tímanum í svona skúnkaleik?  Sennilega ekki!  Áfram Man. City

mbl.is Man.Utd. lagði Tottenham, 1:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmeistaralaun

Mikið rosalega var ég ánægður að Héðinn Steingrímsson sé nú orðinn fullgildur stórmeistari, eftir að hafa náð þrem tilskildum áföngum og 2500 eló-stigum, sem nauðsynleg eru í dag til að verða tilnefndur stórmeistari.  Ég vona svo sannarlega að árangur Héðins verði til þess að þeir Stefan Kristjáns, Jón Viktor og félagar taki sig nú á og landi langþráðum titli.  Vonandi gerist það sama og fyrir um tuttugu árum þegar fjórmenningaklíkan alræmda Jón L, Jóhann Hj, Margeir og Helgi Ólafsson skiptust á að ná stórmeistaraáföngum.  Þegar Jóhanni tókst að landa fyrsta áfanganum þá fylgdu hinir allir í kjölfarið.  Það er hins vegar merkilegt að ég hef aldrei teflt eða talað við Héðinn Steingrímsson.  Ég var eiginlega alveg hættur að tefla þegar hann skýst fram á sjónarsviðið í lok níunda áratugarins og þegar ég byrjaði aðeins að gutla aftur nokkrum árum seinna var Héðinn að mestu hættur að tefla.  Eins og áður segir þá þekki ég manninn bara úr fjölmiðlum en er samt mjög ánægður að hann hafi haft bæði burði og getu til að landa langþráðum titli, eftir að hafa verið í meira en áratug í fríi frá skákinni.  Héðinn sagði í samtali við fréttamann ekki vera viss um hvort hann myndi þiggja stórmeistaralaun frá ríkinu, sem hann á nú rétt á í framhaldi af árangrinum

 

Síðustu daga hafa laun stórmeistara verið í mikilli umræðu m.a á skákhorninu, spjallsvæði skákmanna, en fyrrnefnd skákhorn er ekki vinsælt hjá skákforustu landsins vegna ýmissa meintra dónaskrifa. Ég skil samt ekki þessa viðkvæmni með stórmeistaralaunin hjá skákforustunni, því þau virðast vekja upp svo miklar tilfinningar.  Það rifjaðist einmitt upp samtal mitt við höfuð Áss-fjölskyldunnar fornvin minn Sigga Áss, en ég spurði hann í sakleysi mínu um stórmeistaralaunin fyrir nokkrum árum síðan. Við vorum þá að tefla saman í hinum geysivinsæla forgjafarskákklúbbi, þegar ég ákvað að forvitnast um stórmeistaralaunin í krónum og aurum.  Taldi að Siggi vissi c.a hvað bróðir hans Helgi Áss hefði í laun frá ríkinu, enda stórmeistaralaunin þá umdeild eins og fyrri daginn.  Elsti Ássinn var búinn að fá sér vel neðan í því (eins og ég) og misskildi forvitni mína og taldi að ég væri að stefna á þennan merka titil sjálfur.  Heldur þú virkilega að þú hafir heilabú í að verða stórmeistari öskraði Ássinn og vildi að allir tækju eftir.  Ég bað Sigga vinsamlegast um að róa sig og reyndi að fá hann til að skilja að í villtustu draumum mínum væri GM-áfangi í skák ekki á stefnuskrá minni, heldur væri ég bara að forvitnast um launakjör bróður hans.  Ég benti honum líka á þá staðreynd að stórmeistarar væru ekki klónaðir kjarneðlisfræðingar og að ef greindarvísitala væri mæld í elo-stigum þá kæmi elsti bróðirinn í Áss-fjölskyldunni ekki vel út úr þeim samanburði.  Ekki einu sinni í samanburði við geðdeildarfulltrúann.  Annars hef ég veigrað mér við að ræða um stórmeistaralaunin við skákmenn eftir þetta.  Þau eru og verða alltaf umdeild.  Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að ungir menn sem vinna einn GM áfanga eiga samstundis að fara á þessi laun að því gefnu að þeir stundi skákina af kappi.  Menn eins og Stefán Kr, Jón Viktor, Bragi og fl. eiga að fá að njóta þessara hlunninda. 


Sviet

Snemma í sumar var mér sögð gamansaga sem mér fannst í fyrst alls ekkert fyndin.  Sagan snérist um það að á einu menningarheimili hér í bæ býr fræðimaður einn, sem sérhæfður er í rússneskri menningu og var sá maður víst í heimildaröflun á netinu og fór víst inn á google.com og sló þar inn vitlaust leitarorðið soviet, þs. skrifaði sviet og fékk þá upp mynd af félagsliðanum sitjandi í jógastellingum hinum megin á hnettinum borðandi tælenskan mat.  Þessi skemmti saga fékk svo að heyrast í stóru matarboði Faaborgfjölskyldunnar, þar sem saman voru komnir fjölda manns úr menningarelítu landsins.  Yfir klingjandi rauðvínsglösum mátti heyra hlátrasköll og læti þegar sagan var fram borinn fyrir veislugesti.  Heimspekidoktorinn sjálfur vissi smá deili á félagsliðanum og gat því fullyrt að myndbrotið væri af hinum eina og sanna félagsliða.  Mér fannst nú frekar fúlt að vera orðinn að góðum brandara hjá fólki út í bæ og fór því inn á vefinn google.com og fann ekki þennan fræga myndbandsbút.  Nokkrum vikum seinna var mér sagt að sagan væri ekki alveg nógu nákvæm, því heimspekiprófessorinn hafði víst farið inn á vefinn youtube og slegið þar inn leitarorðið soviet (sviet) og fékk þá mynd af kallinum í góðri átveislu.  Sjálfur kannaðist ég nú við glæpinn, því ég hafði merkt myndbandið SVEIT, en óvart slegið inn sviet, alveg eins og heimspekiprófessorinn.  Það má líka taka það fram að á vefnum youtube er milljónir myndbanda og því stórmerkilegt að hægt sé að lenda í þessum mistökum.

Myndbandið

DSC_1442


Haust

Í mínum huga er haustið að byrja strax í ágúst.  Stutt er í að skólarnir byrji aftur og myrkrið færist yfir.  Annars er það af mér að frétta að þeir tveir bústaðir sem ég var heitastur fyrir var þegar búið að selja öðrum aðila.  Báðir voru þessir bústaðir á viðráðanlegu verði, en því  miður voru aðrir með nef fyrir flottum eignum og voru fyrr til að bjóða í húsin.  Ætli það endi ekki með því að ég fái mér bara hjól eða fellhýsi og setji það niður á lóðinni hjá Dr. Frölich á Þingvöllum.  Annars er sumarið búið að vera mjög gott, en kannski er það dapurlegasta það að geta ekki hlaupið um brekkur og tún vegna ellistirðleika.  Meiðslin hafa orsakað það að maður hefur ekki getað farið í alvöru fjallgöngu ennþá.  En hins vegar hef ég núna meiri áhuga á að horfa á fjallahringinn frekar en að sigrast á fjöllunum.  Enda er ég búinn að uppgötva, að maður er víst orðinn gamall.  100_0077DSC_0923

 


Golf

Félagsliðinn ætlar að skella sér á golfmót í dag, en á ekki von á að árangurinn verði sérstakur.  Eiginlega á hann ekki vona á neinum árangri, því hann hefur ekki spilað golfhring í mörg ár.  En samt skráði hann sig í mótið og ætlar að treysta á æðri máttarvöld og reyna að sleppa því að verða neðstur.  Stefni á næstneðsta sætið.  Aðalatriðið er að ekki að vinna, heldur að vera með.  En þetta máltæki á auðvitað bara við þegar maður hefur ekki æft sig í mörg ár.  Í 99% tilvika á maður sjálfsögðu að setja markið hátt, en í dag verð ég stoltur ef ég týni minna en tíu boltum.  Adíos.

Sumarhúsið

Þá er félagsliðinn að skoða sig um á Suðurlandi til að finna sumarhús fyrir sig og fjölskyldu sína.  Þetta er að ég held þriðja sumarið sem félagsliðinn er að skoða sig um, en í sumar eru mestar líkur á því að hann geri tilboð.  Í fyrsta lagi hefur hagur Strympu lagast til muna og dagar víns og rósa eru að baki.  Hann er nefnilega fullur sjálfstraust, eftir að hafa næstum staðgreitt einbýlishús á tveim hæðum í N-Thailandi og keypt 100 fm. íbúð með bílskúr í hjarta Reykjavíkur á næstum sama mánuðinum um síðustu áramót.  Að sjálfsögðu verður félagsliðinn ekki einn í kaupunum, því hann er búinn að safna liði og þrír til fjórir traustir aðilar innan hans nánasta ætla að taka þátt í dæminu, þannig að nýja sumarhúsið á ekki að kosta meira en ein bíldrusla á hverja fjölskyldu.  Félagsliðinn er núna orðinn alger sérfræðingur í sunnlenskum sveitum, því á Grímsnes/Laugavatns/þingvallasvæðinu á bústaðurinn að vera.  Ætlum að skoða c.a 4-5 bústaði í sumar og gerum svo tilboð með haustinu.  Kannski verða þeir nágrannar Dr. Frölich (Sveinn Ingi heimsmeistari í Víkingaskák) og félagsliðinn og fyrrum heimsmeistari, en Dr. Frölich á bústað á Þingvallasvæðinu.  Ekki má fyrrum heimsmeistari í Víkingaskák vera minni maður en núverandi heimsmeistari í leiknum, því allt sem Dr. Frölich getur getur félagsliðinn.  Vilji er allt sem þarf sagði einmitt náfrændi félagsliðans Einar Benediktsson í ljóði sínu.  Nei, réttara væri að segja að:  "Aðgát skal höfð í nærveru sálar."

Núna er nefnilega komið í ljós að nýútskrifaður sjúkraliði ætlar ekki að ganga í Sjúkraliðafélagið, heldur mun hann áfram verða félagsliði á geðsviði LSH.  Hvernig getur staðið á því?  Jú, launalega hefur hann það mun betur sem félagsliði, heldur en sem nýútskrifaður sjúkraliði, því annars þarf hann að taka á sig launalækkun.  Ótrúlegt en satt þá verða þeir félagsliðar sem voru svo vitlausir að fara í sjúkliða"nám" í framhaldi af félagsliðanafnbótinni að taka á sig launalækkun.  Þetta eru hrikaleg skilaboð frá yfirmönnum LSH til þeirra c.a sex félagliða sem eiga núna eitt ár eftir af hinni alræmdu sjúkraliðabrú.  Skilaboð bloggarans til þeirra eru að hætta námi strax eða styðja bloggarann í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er í sumar.  Því auðvitað tapar bloggarinn aldrei bardaga!  Gamli baráttuhundurinn er alltaf til staðar.  Í versta falli ræður hann sig sem félagsliða á einhverju sambýlinu á mun betri kjörum en LSH getur boðið nýútskrifuðum sjúkraliðum.

  

Ljóst var af morgni og lifnað í grein.
Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.
Við torgið ég sá einn tötrasvein.
Ég tók upp verð, - hann brá að sér fæti.
Landhlaupi var hann og lá upp við stein.
Hann leit á mig snöggt. - Ég ber það í minni.
Einn geisli braust fram, og gullið skein,
gnótt í hans hönd, en aska í minni.

Það smáa er stórt í harmanna heim, -
höpp og slys bera dularlíki, -
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki. -
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Ein hreyfing, eitt orð, - og á örskots-stund
örlaga vorra grunn vér leggjum
á óvæntum, hverfulum farandfund,
við flim og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
- hvað vill sá sem ræður? Voldug og hljóð
reis verkmanna sól yfir múranna eggjum.

Úr einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson

 

 

 


Vinjéttur I.

Bloggarinn fór í Hveragerði með fjölskylduna í afslöppun og líkaði vel.  Það er svo gott fyrir sálina að komast út úr bænum og Ölfusborgir í Hveragerði eru stórkostlega vanmetinn staður.  Stutt að halda í allar áttir og golfvellir, fjöll og veiði í næsta nágrenni.  Í bókahillu Eflingarbústaðarains voru nokkrar góðar bækur, en sú lang flottasta var VinétturII eftir lífskúnstnerinn Ármann Reynisson. 

Eitt kvöldið í fyrra hringir síminn hjá bloggaranum.  Bloggarinn tekur símatalið sem hann gerir sjaldnast þegar ókunnug númer eða leyninúmer eru á símanúmerabirtinum.  Góðan daginn Bloggari! Ármann Reynisson heiti ég og ég las grein þína um Víkingaskák í vikunni og er fannst þetta fín grein.  Mjög áhugavert.  Bloggaranum fannst þetta vera frekar dularfullt símtal, þar sem grein hans um Víkingaskákina var síður en svo góð og átti að birtast sem frétt, en ekki sem aðsend grein.  Ármann kemur sér nú að efninu og bíður bloggaranum að gerast áskrifandi að Vinjéttusögum sínum.  Bloggarinn hlustar nú á Ármann lýsa Vinjéttuforminu og segir bloggaranum frá því að hann sé með fasta og trygga áskrifendur af sögum sínum.  Bloggarinn segist því miður ekki hafa nein bókakaup eða áskriftir á stefnuskrá sinni á þessum síðustu og verstu tímum, en við það kveður Ármennið svo hratt að næsti bær við kveðjuna var að skella á bloggarann.  Ekki kvöddust þeir því með sömu kurteysi og í upphafi samtalsins.  Bloggarinn hafði ekki rekist á Ármann fyrr en hann sá þessa stórmerkilegu bók hans í sumarhúsinu og bókin var því sannkallaður hvalreki fyrir bloggarann á þessum fallegu sumarkvöldum í "sveitinni"

Í sveitinni var Tigerinn í kanínuskónum sínum og í allt í kring um bústaðinn voru hlaupandi kanínur út um allt.  Litlu "börnin" Benjamín og Viktoría tóku sig því til og fóru að veiða kanínur og náðu nokkrum stykkjum og komu með þær upp í bústað.  Að sjálfsögðu fengu þær að heimsækja okkur og voru mjög gæfar og skemmtilegar.  En ekki vildi bloggarinn sjá að hafa þær í sínum húsum, en litlu börnin hlusta ekki á gamlan nöldrandi frænda.  Gamli frændi skemmti sér hins vera við að lesa Vinjéttur Ármanns Reynissonar og Hugarfjötur eftir Paulo Coelho.  Patrecia og Kiddi Hercúles kíktu svo í heimsókn í öllu kanínufárinu og bloggarinn sýndi þeim stoltur bækurnar sem hann var að lesa.  Patrecia sem fædd er í Brasilíu heldur mikið uppá á samlanda sinn Paulo Coelho (en hann skrifaði m.a Alkeimistann) og hún benti bloggaranum á staðreyndir.  Coelho þýðir nefnilega kanína á brasilísku/portúgölsku.  Í öllu kanínufárinu var ég því að lesa skemmtilega bók eftir Pál Kanínu! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Freyr Rúnarsson
Gunnar Freyr Rúnarsson
Kominn á góðan aldur og í góðu jafnvægi.

Spurt er

Hvað á ég að gera á HM?

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 5098

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband